Dec 6, 2007

Sjálfsmont bragfræðibesservisser

Klifuð stafhenda er einstaklega skemmtilegur háttur.

Spé er mjög oft unun að,
aðeins bætir hróður stað.
Staðfastlega´ er gaman grín,
grínlaus þessi´ er vísa mín.

Greindari lesendur þessarar síðu taka kannski eftir að hver lína byrjar á sama orði og línan á undan. Gígantískt flott alveg.

Svo hérna fyrir áhugasama og vitiborna er skemmtileg braghenda eftir mig.

Gaman væri´ að geta eitthvað gert í þessu,
Allt ég hérna keyri´ í klessu,
kolfell ég oft undir pressu.

Braghendan er eins og afhendingin sem ég hef tjáð mig um áður hér, nema með þriðju línunni. Alveg óðsmanns æðislegt.

Svo að lokum til að sýna fram á augljósa yfirburði mína í íslenskri ljóðagerð og hve framar ég er öllum þeim neföpum sem kalla sig skáld, kem ég með tvær þrískeytlur hér:

Fjárann feigðar vissir,
fundu þeir er mundu:
Báran bítur, kyssir.

Varir mínar mættu,
meyju, ásýnd Freyju,
farir hennar sættu.

Þeir sem ekki búa á Sólheimum eða öðrum álíka vernduðum stofnunum sjá að fyrsta orð þrískeytlunnar rímar við fyrsta orð þriðju línu, seinasta orð fyrstu línu rímar við seinasta orð þriðju línu og svo að lokum rímar fyrsta orð línu tvö við seinasta orð línu tvö. Auðvitað er ort skiljanlega og undir ströngustu reglum bragfræðinnar þó frjálst sé hvort stuðlað sé í seinustu línunni.

Vonandi höfðuð þið góða skemmtun af þessu gorti mínu en ef ekki get ég sagt ykkur af hverju, af því gefnu að þið rétt slefið upp í nauðsynlega skilningsgreind.

Ykkar sé knúsið. Bæ!